DMM Lausnir logo

Fréttir


13. mars

DMM, nýsköpun í 20 ár / Startup Energy

Þann 13. mars stóð Iceland Geothermal fyrir opnum fundi í tengslum við viðskiptahraðalinn Startup Energy Reykjavík 2015.

 

Eftir ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, voru kynnt 7 verkefni hraðalsins. Allt athygliverð nýsköpunarverkefni sem verða kynnt nánar á "Investor Day", þann 27. mars næst komandi í Borgartúni 19, höfuðstöðvum Arions banka.

 

Á fundinum flutti Guðmundur Jón Bjarnason, framkvæmdastjóri DMM Lausna, erindi þar sem hann gerði grein fyrir nýsköpunarsögu DMM í rúmlega 20 ár. Upphaf DMM má rekja til áranna 1992 og 93. Það voru þeir Albert Albertsson og Hreinn Halldórsson ásamt fleiri góðum mönnum hjá þá Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi sem settu boltann af stað. Fyrstu árin var DMM verkefni hjá HS, en árið 1997 var fyrirtækið DMM Lausnir formlega stofnað, það hét upphaflega Softa, en hefur alla tíð borið sömu kennitölu. Guðmundur sagði frá því að upphafsárunum höfðu fylgt vaxtaverkir og fjármálaerfiðleikar. Fyrirtækinu tókst hins vegar að slíta barnskónum og ná undir sig fótunum og þá einkum með festu og öguðum vinnubrögðum og nánu og góðu samstarfi við viðskiptavini sína. Öguð vinnubrögð hafa skilað því að starfsmenn verja mjög litlum tíma í bilanaleit og reddingar og þá þeim mun meiri tíma í nýsköpun. Frá árinu 2004 hefur fyrirtækið stundað kerfisbundna nýsköpun á hverju einasta ári, sem er lykillinn að góðu gengi þess mörg undanfarin ár og sá grundvöllur sem fyrirtækið mun nýta sér til að vaxa enn frekar á komandi árum.

 

Á myndunum hér að neðan má sjá Ragnheiði Elínu og Guðmund Jón en þess má til gamans geta að þau gengu saman í grunnskóla á sínum tíma í Keflavík.