DMM Lausnir logo

Fréttir


27. febrúar

DMM notendaráðstefnan 2015 - Hugmyndir

DMM Notendaráðstefnan 2015 var haldin í gær. Ráðstefnan bar yfirskriftina "Hugmyndir", enda var hugmyndamiðlun og hugmyndavinna ríkjandi stef í gegnum daginn. Viðburðurinn fór fram á Hótel Hilton þar sem boðið var upp á virkilega góðan aðbúnað og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

 

Í "fyrri hálfleik" voru flutt góð, áhugaverð og fjölbreytt erindi, sem gáfu ágætlega til kynni fjölbreytt notagildi DMM og hugmyndaauðgi, frumkvæði og kraft starfsmanna og stjórnenda þeirra fyrirtækja sem nota kerfið. Þess má geta að notkun DMM sem sítengds (on-line) kerfis með hjálp spjaldtölva er eftirtektarverð á vettvangi viðhaldsstjórnunar (asset management), en fróðir utanaðkomandi menn hafa sagt okkur að þar séum við meðal þeirra sem eru í broddi fylkingar á heimsvísu.

Í erindum var m.a. komið inn á upphaf DMM, hvernig þetta allt byrjaði í Svartsengi. Fjallað var um nokkrar af nýjustu kerfiseiningunum á borð við Skjalastjórnun, sem nokkur fyrirtæki hafa þegar tekið í notkun. Eins og fram kom hér á undan, þá var fjallað um notkun vefgáttar DMM, bæði með borðtölvum og einnig með spjaldtölvum, en bæði HS Veitur og RARIK hafa sett markvissa stefnu á gera starfsmönnum mögulegt að nýta DMM til allra verka í gegnum spjaldtölvur á vettvangi ... og þar með að rafvæða að fullu sem flest ferli. Rætt var um notkun DMM fyrir skráningu truflana í hitaveitu- og rafveitukerfum og fyrir gæðaúttektir (ISO 9001) hjá Orkubúi Vestfjarða. Þá kom fínt erindi um ástandsstýrt viðhald hjá Landsvirkjun og mikilvægi þess að líta á viðhald sem miðstöð hagnaðar en ekki kostnaðar. Loks var greint frá borholueftirliti hjá bæði OR og ON og hvernig tekist hefur að samþætta eftirlit, "handvirka" upplýsingaöflun, sjálfvirka upplýsingaöflun og skýrslugjöf þannig að rekstrar-, viðhalds- og greiningaraðilar njóta góðs af.

 

Hér eru erindin:

Upphaf DMM, og nýjast kerfiseining, Hreinn Halldórsson HS Orku.

DMM spjaldtölvuvæðing hjá HS Veitum, Trausti Hvannberg Ólafsson HS Veitum

Bilana-, truflana- og gæðaskráning hjá OV, Sigurður Arnórsson Orkubúi Vestfjarða

Ástandsstýrt viðhald í DMM, Þrándur Rögnvaldsson Landsvirkjun

Borholueftirlit og -skýrslugjöf í DMM hjá OR og ON, Páll Baldvin Sveinsson Orkuveitu Reykjavíkur

 

 

Í "síðari hálfleik" fór fram hugmyndavinna sem náði bæði til áframhaldandi síþróunar DMM og til samstarfs notenda á vettvangi viðhaldsstjórnunar. Hugmyndavinnan fór vel fram og það skapaðist létt og góð stemming. Í lokin voru kynntar þær hugmyndir sem stóðu upp úr eftir hópavinnu og kenndi þar vægast sagt ýmissa grasa og er þar að finna góðan efnivið og framtíðarnesti fyrir okkur hjá DMM Lausnum. Við þökkum ráðstefnugestum fyrir góðan dag, virka þátttöku og flottar hugmyndir.

 

Hér að neðan eru nokkrar myndir sem teknar voru á vettvangi. Á þeirri fyrstu eru fyrirlesararnir ásamt framkvæmdastjóra DMM Lausna.  Frá vinstri til hægri eru þetta Þrándur Rögnvaldsson frá Landsvirkjun, Sigurður Arnórsson frá Orkubúi Vestfjarða, Páll Baldvin Sveinsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Hreinn Halldórsson frá HS Orku, Trausti Hvannberg Ólafsson frá HS Veitur og Guðmundur Jón Bjarnason frá DMM Lausnum.