
Grindavík notar DMM
5. ágúst 2025
Eins og við vitum þá glíma starfsmenn og íbúar Grindavíkurbæjar við fordæmalausar aðstæður. Grindvíkingar eru þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og vinna ótrauðir að því að lagfæra innviði og gera bæinn öruggan.
Áður en jarðhræringarnar hófust var Grindavíkurbær kominn vel af stað með notkun DMM fyrir eigna- og viðhaldsstjórnun, ýmsar lagfæringar og þó í sér í lagi fyrirbyggjandi viðhald og eftirlit af ýmsu tagi.
Eitt af því sem notkun hugbúnaðarkerfis á borð við DMM felur í sér er ákveðinn agi og festa sem aftur leiðir til þess að hin ýmsu verk eru tekin fastari tökum en ella, skipulag er betra, verk eru unnin á hagkvæmari máta og frágangur verka og tilheyrandi gagna er betri en ella.
Það er vel þekkt að þegar bæjarfélög, fyrirtæki og stofnanir lenda í óræðum aðstæðum þá bitnar það á starfssemi sem í eðli sínu einkennist af festu og skipulagi, sem á vel að merkja við um eigna- og viðhaldsstjórnun. Það losnar um festuna, málum er reddað og það sem varðar skipulag og frágang er "kannski skráð seinna", sem þó sjaldan verður. Sú er ekki raunin í Grindavík, verk og tilheyrandi upplýsingar varðandi eignir bæjarins, ástandsmat, tjónamat og lagfæringar eru eftir sem áður skráðar í DMM. Þetta var, eins og komið hefur fram á kynningum hjá Sigurði R. Karlssyni hjá Grindavíkurbæ, meðvituð ákvörðun sem var tekinn strax 11. nóvember 2023, það er að segja að öll frávik og meðhöndlun þeirra skuli vera skráð í DMM og það hefur einfaldað ferli og reynst grunnur að vel heppnuðum aðgerðum í framhaldinu.
Þetta er frábær fyrirmynd fyrir hvert það fyrirtæki, bæjarfélag eða stofnun sem er að innleiða markvissari vinnubrögð á vettvangi viðhaldsstjórnunar og þá yfirleitt við betri aðstæður en Grindvíkingar glíma við núna. Vel gert!
Til baka