
Skipulag í viðhaldsstjórnun og vorfundur EVS
15. maí 2025
Vorfundur Eigna- og viðhaldsstjórnunarfélags Íslands, EVS, var haldinn á Grundartanga hjá Norðuráli fimmtudaginn 15. maí. Norðurál bauð upp á vettvangsskoðun og það var virkilega gaman að sjá og heyra hvernig starfsseminn hefur þroskast, tækninýjungar óspart nýttar og aðbúnaður starfsfólks er til fyrirmyndar.
Ásmundur Jónsson frá Alvotech kynnti íslenska þýðingu á staðlinum EN 17007 Maintenance processes and associated indicators sem verður tilbúinn síðla sumars. Þessi staðall er ættaður frá CEN/TC319 en í þeirri Technical Committee sitja margir fulltrúar frá evrópsku viðhaldsstjórnunar samtökunum EFNMS enda gegnir staðallinn ríku hlutverki hjá EFNMS fyrir stöðlun upplýsingamiðlunar og sem kjölfesta í námskeiðshaldi. EVS hefur kostað þýðingu þessa staðals sem verður miðlað til aðildarfélaga og þeirra sem taka EVS námskeið til vottunar í viðhaldsstjórnun.
Ásmundur fjallaði einnig um frammistöðumat í viðhaldsstjórnun.
Garðar Garðarsson frá Landsvirkjun var með erindi um evrópskar áherslur í eignastýringu og Guðmundur Jón Bjarnason frá DMM Lausnum kynnti EVS námskeiðið til vottunar viðhaldsstjóra sem verður haldið í haust og er því sem næst fullbókað en stefnt er að halda það árlega að hausti.
Síðast en ekki síst var Auður Freyja Kjartansdóttir með kynningu á viðhaldsskipulagi Norðuráls, "planning and scheduling". Auður ávarpaði m.a. hvernig verk eru skipulögð frá viku til viku þ.a. nýting mannafla sé sem best, varahlutir og önnur aðföng gerð klár og öryggis gætt í hvívetna. Skipulag viðhaldsmála skiptir miklu máli fyrir flæði verka almennt séð og þann árangur sem næst á vettvangi viðhaldsmála og það er mikilvægt hlutverk hugbúnaðarkerfa fyrir eigna- og viðhaldsstjórnun að styðja við skipulagið og miðlun verka.
Til baka